Skip to Content

Nýr forseti Sögufélags

Aðalfundur Sögufélags var haldinn í fundarsal Þjóðarbókhlöðunnar laugardaginn 24. október. Smári Geirsson flutti erindi um hvalveiðar við Ísland, en bók hans um það efni er nýkomin út hjá Sögufélagi. Góður rómur var gerður að erindi hans. Ný stjórn var skipuð á aðalfundinum. Guðni Th. Jóhannesson forseti félagsins gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu í því embætti, og tekur sæti í varastjórn. Bragi Þorgrímur Ólafsson gjaldkeri og Helgi Skúli Kjartansson meðstjórnandi gengu úr stjórn og þakkaði Guðni þeim fyrir vel unnin störf í þágu félagsins. Nýr forseti félagsins var kjörin Hrefna Róbertsdóttir og Óðinn Jónsson kemur einnig nýr inn í stjórnina. Um tveir tugir manna sóttu fundinn.

Sögufélag hefur gefið út bókina Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915 eftir Smára Geirsson. Í þessu mikla verki birtist í fyrsta sinn ítarleg rannsókn á hvalveiðum við Ísland síðan land byggðist uns þær voru bannaðar með lögum árið 1915. gerð er grein fyrir veiðum Íslendinga en meginumfjöllunin er um hvalveiðar erlendra manna. Þegar á 17. öld komu útlendingar upp hvalstöðvum í landinu en umsvið þeirra urðu mest á síðari hluta 19. aldar og í byrjun 20. aldar.

Í bókinni er lögð áhersla að fjalla um daglegt líf fólksins á hvalstöðvunum og eins er lítarleg grein gerð fyrir afstöðu Íslendinga og stjórnvalda til veiðanna. Sú umfjöllun er svo sannarlega forvitnileg.

Í bókinni er sagt frá athyglisverðum tilraunaveiðum Bandaríkjamanna, Dana og Hollendinga við landið á árunum 1863-1872. Hvalstöð sem Bandaríkjamenn reistu á Vestdalseyri í Seyðisfirði eystra er án efa fyrsta vélvædda verksmiðjan á Íslandi og reyndar einnig fyrsta vélvædda hvalstöðin í veraldarsögunni. Mest fer þó fyrir Norðmönnum í þessari sögu.

Á síðari hluta 19. aldar urðu Norðmenn forystuþjóð á sviði hvaleiða og árið 1883 hófst norska hvalveiðitímabilið á Íslandi. Þá urðu veiðarnar umfangsmestar við landið.

Bókina prýða um 470 myndir og kort sem gæða umfjöllunina lífi og hefur drjúgur hluti myndefninsins ekki komið fyrir sjónir Íslendinga fyrr.

Höfundur: Smári Geirsson
Með álfum. Ævisaga flökkukonunnar Ingiríðar Eiríksdóttur frá Haga í Þeingeyjarsýslu 1777-1857 eftir Yngva Leifsson.
 
„Hún var með ljósbrúnt hár á höfði og ljósar augabrúnir, blá og smágerð augu, stórt og þykkt nef, þykkar varir, langleitt og magurt andlit, stuttan háls, stórar hendur og fætur, 57 ¾ danskar tommur á hæð og 16 ¾ tommur breið yfir herðar.”
 
Hér er sögð saga flökkukonu á Íslandi. Ævi hennar var erfið og áföllin ærin. Ingiríður Eiríksdóttir fæddist árið 1777. Barnung neyddist hún til að flytja frá bæ til bæjar á Norðurlandi, upp á náð og miskunn annarra komin þegar óvenju hart var í ári á Íslandi. Kaldlyndi valdhafa í landinu gerði illt verra. Hvern dag var dauðinn nærri.
Yngvi Leifsson sagnfræðingur byggir frásögn sína af þessu átakanlega lífshlaupi á nákvæmum yfirheyrslum sýslumanna, annálum og öðrum heimildum fyrri alda. Þótt lífsgæði séu öll önnur í dag á saga fólks á stöðugum flótta enn mikið erindi við okkur
Höfundur: Yngvi Leifsson
Heimstyrjöldin síðari eftir Jón Þ. Þór
 
Á þessu ári eru liðin sjötíu ár frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari. Hún var háð á árunum 1939-1945 og verðskuldar heitið heimsstyrjöld fremur en nokkur önnur vopnuð átök sem heimildir greina frá. Hún stóð í sex ár, 2.174 daga ef talið er frá innrás Þjóðverja i Pólland árið 1939 til þess er Japanir gáfust upp 1945. Áhrifa hennar gætti með einum eða öðrum hætti í öllum heimshlutum, hún kostaði um sextíu milljónir mannslífa og olli meira fjár- og eignartjóni en dæmi eru um í öðrum styrjöldum. Er ekkert ofsagt þó henni sé lýst sem mesta hildarleik í gjörvallri mannkynssögunni. 
 
Í þessari bók eru sögu styrjaldarinna lýst í stuttu máli, sagt frá gangi hennar í loft, á láði og legi. Hér er frægustu orrustum styrjaldarinnar lýst, sagt frá helstu þátttakendum og áhrifavöldum og reynt að skyggnast inn í hugskot þeirra sem mest áhrif höfðu á gang mála.
Höfundur: Jón Þ. Þór


Drupal vefsíða: Emstrur