Skip to Content

Aðalfundur Sögufélags 17. september 2016

Aðalfundur Sögufélags verður haldinn laugardaginn 17. september í aðsetri Sögufélags í Gunnarshúsi, Dyngjuvegi 8, 104 Reykjavík.

Dagskrá fundarins verður sem hér segir:

Kl. 15:00: Aðalfundur.

1.      Skýrsla stjórnar
2.      Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar
3.      Lagabreytingar
4.      Kjör stjórnar og annarra trúnaðarmanna
5.      Önnur mál

Kl. 16:00: Sverrir Jakobsson flytur erindið „Átakasaga 12. og 13. aldar“.

Bók Sverris, Auðnaróðal. Baráttan um Ísland 1096-1281, er nýkomin út hjá Sögufélagi. Í henni greinir Sverrir pólitísk átök þeirrar ófriðarára sem náði hámarki á Íslandi á hinni svokölluðu Sturlungaöld og setur þau í nýtt samhengi þar sem áhersla er lögð á hlutdeild fleiri en fáeinna höfðingja.

Tillögur að lagabreytingum má nálgast hér.

Á fáeinum áratugum tók íslenskt samfélag stakkaskiptum og varð eins og önnur evrópsk miðaldasamfélög. Valdabarátta höfðingja náði hámarki á árunum 1220–1264 sem hafa oft verið nefnd Sturlungaöld. Hér eru pólitísk átök þessara ófriðarára greind og sett í nýtt samhengi þar sem áhersla er lögð á hlutdeild fleiri en fáeinna höfðingja. Við sögu koma höfðingjar, húsfreyjur, vígamenn, frillur, fræðimenn, fróðleikskonur og flakkarar.

 

Auðnaróðal er aðgengilegt yfirlitsrit sem nýtist bæði háskólanemum og almennum lesendum. Íslandssagan í nýju og stundum óvæntu ljósi.

 

„Einkar vandað fræðirit en skemmtilegt og spennandi um leið.“ — Guðni Th. Jóhannesson 

Höfundur: Sverrir Jakobsson

Sögufélag hefur gefið út bókina Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915 eftir Smára Geirsson. Í þessu mikla verki birtist í fyrsta sinn ítarleg rannsókn á hvalveiðum við Ísland síðan land byggðist uns þær voru bannaðar með lögum árið 1915. gerð er grein fyrir veiðum Íslendinga en meginumfjöllunin er um hvalveiðar erlendra manna. Þegar á 17. öld komu útlendingar upp hvalstöðvum í landinu en umsvið þeirra urðu mest á síðari hluta 19. aldar og í byrjun 20. aldar.

Í bókinni er lögð áhersla að fjalla um daglegt líf fólksins á hvalstöðvunum og eins er lítarleg grein gerð fyrir afstöðu Íslendinga og stjórnvalda til veiðanna. Sú umfjöllun er svo sannarlega forvitnileg.

Í bókinni er sagt frá athyglisverðum tilraunaveiðum Bandaríkjamanna, Dana og Hollendinga við landið á árunum 1863-1872. Hvalstöð sem Bandaríkjamenn reistu á Vestdalseyri í Seyðisfirði eystra er án efa fyrsta vélvædda verksmiðjan á Íslandi og reyndar einnig fyrsta vélvædda hvalstöðin í veraldarsögunni. Mest fer þó fyrir Norðmönnum í þessari sögu.

Á síðari hluta 19. aldar urðu Norðmenn forystuþjóð á sviði hvaleiða og árið 1883 hófst norska hvalveiðitímabilið á Íslandi. Þá urðu veiðarnar umfangsmestar við landið.

Bókina prýða um 470 myndir og kort sem gæða umfjöllunina lífi og hefur drjúgur hluti myndefninsins ekki komið fyrir sjónir Íslendinga fyrr.

Höfundur: Smári Geirsson
Með álfum. Ævisaga flökkukonunnar Ingiríðar Eiríksdóttur frá Haga í Þeingeyjarsýslu 1777-1857 eftir Yngva Leifsson.
 
„Hún var með ljósbrúnt hár á höfði og ljósar augabrúnir, blá og smágerð augu, stórt og þykkt nef, þykkar varir, langleitt og magurt andlit, stuttan háls, stórar hendur og fætur, 57 ¾ danskar tommur á hæð og 16 ¾ tommur breið yfir herðar.”
 
Hér er sögð saga flökkukonu á Íslandi. Ævi hennar var erfið og áföllin ærin. Ingiríður Eiríksdóttir fæddist árið 1777. Barnung neyddist hún til að flytja frá bæ til bæjar á Norðurlandi, upp á náð og miskunn annarra komin þegar óvenju hart var í ári á Íslandi. Kaldlyndi valdhafa í landinu gerði illt verra. Hvern dag var dauðinn nærri.
Yngvi Leifsson sagnfræðingur byggir frásögn sína af þessu átakanlega lífshlaupi á nákvæmum yfirheyrslum sýslumanna, annálum og öðrum heimildum fyrri alda. Þótt lífsgæði séu öll önnur í dag á saga fólks á stöðugum flótta enn mikið erindi við okkur
Höfundur: Yngvi Leifsson


Drupal vefsíða: Emstrur