Skip to Content

Nýtt hefti Sögu komið út.

Vorhefti Sögu 2015 er komið út. Þar heldur umræðan um söguna af morðinu á Natani Ketilssyni áfram í viðbrögðum Vilhelms Vilhelmssonar við skrifum Eggerts Þórs Bernharðssonar og Helgu Kress um það efni. Í grein sinni ræðir Vilhelm um efnið með hliðsjón af eðli og gildi réttarskjala sem sögulegra heimilda. Önnur grein er eftir Steinunni Kristjánsdóttur og fjallar um einsetulifnað en Steinunn veltir fyrir sér einsetulifnaði sem undankomuleið frá hjónabandi á miðöldum. Þá skrifar Gunnar Óskarsson arkitekt um Verkamannabústaðina við Hringbraut í Reykjavík og fjallar um hönnun þeirra í samhengi evrópskrar byggingarsögu.  Viðhorfsgrein Sögu er eftir Erlu Huldu Halldórsdóttir og fjallar um stöðu fræðimannsins í ævisögulegum verkum, einkum með vísan í ævisögu Sigríðar Pálsdóttur (1809–1871) sem Erla Hulda hefur í smíðum. Þá birtir Saga andmælaræður við doktorsvörn Sumarliða Ísleifssonar en doktorsritgerð Sumarliða fjallar um ímyndir Íslands og Grænlands fyrr á öldum. Í heftinu má að lokum finna fjölda ritdóma um bækur á sviði sagnfræði og skyldra greina sem komu flestar út árið 2014.  
 
 
 
 

 

Winston Churchill var einn stórbrotnasti og litríkasti stjórnmálamaður 20. aldar. Hann lifði langa ævi og kom með einum eða öðrum hætti að helstu atburðum veraldarsögunnar um sína daga. Þekktastur er hann þó sem forsætisráðherra Bretlands og einn fremsti leiðtogi Bandamanna á árum seinni heimsstyrjaldar. Churchill var einnig í hópi þekktustu rithöfunda í enskumælandi löndum, afkastamikill höfundur sagnfræðirita sem enn hafa mikið gildi. Árið 1953 hann Nóbelsverðlaunin í bókmenntum.

Jón Þ. Þór (f. 1944) er í hópi þekktustu og afkastamestu sagnfræðinga á Íslandi og prófessor við Háskólann á Akureyri. hann hefur lengi haft mikinn áhuga á Churchill og í þessari bók segir hann sögu hans í stuttu máli á lifandi og skemmtilegan hátt. Ævisaga Winstons Churchills á erindi við alla sem hafa áhuga á sögu og samtíð, og sýnir auk þess sérstaklega vel hve miklu máli hæfir leiðtogar skipta á örlagastundum.
 
 
Höfundur: Jón Þ. Þór

Skrásetjarinn Þúkýdídes lýsir hinum hörðu bardögum Aþeninga, Spartverja og annarra sem komu við sögu þegar stríðið geisaði á fimmtu öld fyrir Kristsburð. Sjálfur var Þúkýdídes frá Aþenu og tók þátt í átökunum fyrstu árin. Samt leyfir hann lesandanum að draga sínar eigin ályktanir um atburðina sem lýst er. Þannig hafa seinni sagnaritarar mátt hafa hann til eftirbreytni. Jafnframt er ekki að undra að rit Þúkýdídesar hefur löngum verið skyldulesning í ýmsum deildum háskóla um víða veröld. Í bókarlok er lesandi margs vísari og til vitnis um það eru þessi orð þýðanda í inngangi verksins: „Enda þótt næstum hálft þriðja árþúsund sé liðið frá því að þeir atburðir gerðust, sem þar segir frá, hefur manneðlið lítið breyst síðan saga þeirra var samin. Enn eru valdagræðgin, valdhrokinn, ágirndin, yfirgangurinn og ófyrirleitnin söm við sig hjá þeim sem telja sig hafa krafta til að beita. Höfundur sögunnar virðist af viturleik sínum hafa gert sér grein fyrir þessu.“

Höfundur: Þúkýdides
Út er komið hjá Sögufélagi ritið Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga eftir Jón Karl Helgason. Höfundur fjallar þar með fjölbreytilegum hætti um eðli og hlutverk þjóðardýrlinga og kortleggur þær aðferðir sem notaðar eru til að rækta minningu þeirra á opinberum vettvangi. Höfuðáhersla er lögð á skáld og listamenn en stjórnmálamenn og trúarhetjur koma einnig við sögu.
 
Í bókinni er meðal annars rýnt í íkonamynd Jóhannesar S. Kjarvals á forsíðu tekjublaðs Frjálsrar verslunar og rifjað upp þegar meintar jarðneskar leifar Jóns biskups Arasonar voru grafnar upp á Hólum og teknar til varðveislu í Kristskirkju í Reykjavík. Þá ber arfleifð Jónasar Hallgrímssonar töluvert á góma; bent er á að valið á honum  þjóðskáldi Íslendinga var engan veginn sjálfgefið á 19. öld og eins varpað ljósi á nýlegar deilur um valið á honum og lóu sem myndefni á tíu þúsund króna seðli. Einn kafli verksins er helgaður uppröðun á myndastyttum í Reykjavík og þeirri breytingu sem varð á henni á fjórða og fimmta áratug liðinnar aldar. Þá er fjallað um tvö ólík verk sem byggja á ævi Halldórs Laxness, annars vegar fyrsta bindi ævisögu hans eftir Hannes Hólmstein Gissurarson og hins vegar leikritið Halldór í Hollywood eftir Ólaf Hauk Símonarson, en eðlilegt er að líta á þau bæði sem endurritun ýmissa eldri verka. Íslensku þjóðardýrlingarnir eru auk þess settir í samband við menningarlega þjóðardýrlinga annarra Evrópuþjóða, ekki síst slóvenska þjóðskáldið France Prešeren og danska ævintýraskálDið H.C. Andersen. 
 
Jón Karl Helgason er prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Meðal fyrri verka hans eru Hetjan og höfundurinn, Höfundar Njálu, Ferðalok og Mynd af Ragnari í Smára. Hann bætir hér nýrri vídd við fyrri skrif sín um helga dóma íslenska þjóðaríkisins.
Höfundur: Jón Karl Helgason


Drupal vefsíða: Emstrur