Skip to Content

Sögufélag flytur í Gunnarshús við Dyngjuveg í vor

Sögufélag hefur verið í sambýli við Hið íslenska bókmenntafélag síðastliðin fjögur til fimm ár í Skeifunni, og haft sína afgreiðslu og aðstöðu þar. Á vordögum munu verða breytingar þar á. Afgreiðsla Sögufélags verður í Skeifunni fram til 31. maí næstkomandi. Sögufélag mun þá kveðja  Hið íslenska bókmenntafélag með þökkum fyrir gott samstarf þar síðastliðin ár.

 

Ný aðstaða fyrir félagið verður í Gunnarshúsi við Dyngjuveg 8 í Reykjavík, í sambýli við Rithöfundasamband Íslands. Þar mun félagið koma sér fyrir í Norðurstofu hússins. Í Gunnarhúsi verður einnig aðstaða fyrir fundahöld og höfundakvöld á vegum félagsins. Nánari fregnir verða fluttar síðar af viðburðum á vegum félagsins þar. 

Sögufélag hefur gefið út bókina Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915 eftir Smára Geirsson. Í þessu mikla verki birtist í fyrsta sinn ítarleg rannsókn á hvalveiðum við Ísland síðan land byggðist uns þær voru bannaðar með lögum árið 1915. gerð er grein fyrir veiðum Íslendinga en meginumfjöllunin er um hvalveiðar erlendra manna. Þegar á 17. öld komu útlendingar upp hvalstöðvum í landinu en umsvið þeirra urðu mest á síðari hluta 19. aldar og í byrjun 20. aldar.

Í bókinni er lögð áhersla að fjalla um daglegt líf fólksins á hvalstöðvunum og eins er lítarleg grein gerð fyrir afstöðu Íslendinga og stjórnvalda til veiðanna. Sú umfjöllun er svo sannarlega forvitnileg.

Í bókinni er sagt frá athyglisverðum tilraunaveiðum Bandaríkjamanna, Dana og Hollendinga við landið á árunum 1863-1872. Hvalstöð sem Bandaríkjamenn reistu á Vestdalseyri í Seyðisfirði eystra er án efa fyrsta vélvædda verksmiðjan á Íslandi og reyndar einnig fyrsta vélvædda hvalstöðin í veraldarsögunni. Mest fer þó fyrir Norðmönnum í þessari sögu.

Á síðari hluta 19. aldar urðu Norðmenn forystuþjóð á sviði hvaleiða og árið 1883 hófst norska hvalveiðitímabilið á Íslandi. Þá urðu veiðarnar umfangsmestar við landið.

Bókina prýða um 470 myndir og kort sem gæða umfjöllunina lífi og hefur drjúgur hluti myndefninsins ekki komið fyrir sjónir Íslendinga fyrr.

Höfundur: Smári Geirsson
Með álfum. Ævisaga flökkukonunnar Ingiríðar Eiríksdóttur frá Haga í Þeingeyjarsýslu 1777-1857 eftir Yngva Leifsson.
 
„Hún var með ljósbrúnt hár á höfði og ljósar augabrúnir, blá og smágerð augu, stórt og þykkt nef, þykkar varir, langleitt og magurt andlit, stuttan háls, stórar hendur og fætur, 57 ¾ danskar tommur á hæð og 16 ¾ tommur breið yfir herðar.”
 
Hér er sögð saga flökkukonu á Íslandi. Ævi hennar var erfið og áföllin ærin. Ingiríður Eiríksdóttir fæddist árið 1777. Barnung neyddist hún til að flytja frá bæ til bæjar á Norðurlandi, upp á náð og miskunn annarra komin þegar óvenju hart var í ári á Íslandi. Kaldlyndi valdhafa í landinu gerði illt verra. Hvern dag var dauðinn nærri.
Yngvi Leifsson sagnfræðingur byggir frásögn sína af þessu átakanlega lífshlaupi á nákvæmum yfirheyrslum sýslumanna, annálum og öðrum heimildum fyrri alda. Þótt lífsgæði séu öll önnur í dag á saga fólks á stöðugum flótta enn mikið erindi við okkur
Höfundur: Yngvi Leifsson
Heimstyrjöldin síðari eftir Jón Þ. Þór
 
Á þessu ári eru liðin sjötíu ár frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari. Hún var háð á árunum 1939-1945 og verðskuldar heitið heimsstyrjöld fremur en nokkur önnur vopnuð átök sem heimildir greina frá. Hún stóð í sex ár, 2.174 daga ef talið er frá innrás Þjóðverja i Pólland árið 1939 til þess er Japanir gáfust upp 1945. Áhrifa hennar gætti með einum eða öðrum hætti í öllum heimshlutum, hún kostaði um sextíu milljónir mannslífa og olli meira fjár- og eignartjóni en dæmi eru um í öðrum styrjöldum. Er ekkert ofsagt þó henni sé lýst sem mesta hildarleik í gjörvallri mannkynssögunni. 
 
Í þessari bók eru sögu styrjaldarinna lýst í stuttu máli, sagt frá gangi hennar í loft, á láði og legi. Hér er frægustu orrustum styrjaldarinnar lýst, sagt frá helstu þátttakendum og áhrifavöldum og reynt að skyggnast inn í hugskot þeirra sem mest áhrif höfðu á gang mála.
Höfundur: Jón Þ. Þór


Drupal vefsíða: Emstrur