Skip to Content

Vorhefti Sögu 2014 er komið út

Vorhefti Sögu 2014 er komið út. Þar er meðal annars að finna greinar eftir Jóhönnu Þ. Guðmundsdóttur um þróun garðræktar á Íslandi á síðari hluta 18. aldar og Sverri Jakobsson um leiguhirðstjórn sem tekin var upp á Íslandi um miðja 14. öld. Guðmundur Hálfdanarson veltir fyrir sér hvort Ísland hafi verið nýlenda og Helga Kress bregst við nýlegri grein Eggerts Þórs Bernharðssonar um sögulegar heimildir er varða morðið á Natani Ketilssyni. Þá fjalla þeir Loftur Guttormsson og Helgi Skúli Kjartansson um rannsóknir á sögu siðaskiptanna á Íslandi en Óðinn Melsteð skrifar um umhverfissagnfræði. Að venju birtir Saga andmæli við doktorsvörn í sagnfræði og fjölda ritdóma um nýlegar bækur þar á meðal einn ítardóm um sögur þriggja stjórnmálamanna sem komu út fyrir síðustu jól, þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur, Steingríms J. Sigfússonar og Össurar Skarphéðinssonar.
 
 
 

 

Út er komið hjá Sögufélagi ritið Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga eftir Jón Karl Helgason. Höfundur fjallar þar með fjölbreytilegum hætti um eðli og hlutverk þjóðardýrlinga og kortleggur þær aðferðir sem notaðar eru til að rækta minningu þeirra á opinberum vettvangi. Höfuðáhersla er lögð á skáld og listamenn en stjórnmálamenn og trúarhetjur koma einnig við sögu.
 
Í bókinni er meðal annars rýnt í íkonamynd Jóhannesar S. Kjarvals á forsíðu tekjublaðs Frjálsrar verslunar og rifjað upp þegar meintar jarðneskar leifar Jóns biskups Arasonar voru grafnar upp á Hólum og teknar til varðveislu í Kristskirkju í Reykjavík. Þá ber arfleifð Jónasar Hallgrímssonar töluvert á góma; bent er á að valið á honum  þjóðskáldi Íslendinga var engan veginn sjálfgefið á 19. öld og eins varpað ljósi á nýlegar deilur um valið á honum og lóu sem myndefni á tíu þúsund króna seðli. Einn kafli verksins er helgaður uppröðun á myndastyttum í Reykjavík og þeirri breytingu sem varð á henni á fjórða og fimmta áratug liðinnar aldar. Þá er fjallað um tvö ólík verk sem byggja á ævi Halldórs Laxness, annars vegar fyrsta bindi ævisögu hans eftir Hannes Hólmstein Gissurarson og hins vegar leikritið Halldór í Hollywood eftir Ólaf Hauk Símonarson, en eðlilegt er að líta á þau bæði sem endurritun ýmissa eldri verka. Íslensku þjóðardýrlingarnir eru auk þess settir í samband við menningarlega þjóðardýrlinga annarra Evrópuþjóða, ekki síst slóvenska þjóðskáldið France Prešeren og danska ævintýraskálDið H.C. Andersen. 
 
Jón Karl Helgason er prófessor við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Meðal fyrri verka hans eru Hetjan og höfundurinn, Höfundar Njálu, Ferðalok og Mynd af Ragnari í Smára. Hann bætir hér nýrri vídd við fyrri skrif sín um helga dóma íslenska þjóðaríkisins.
Höfundur: Jón Karl Helgason

„Deilugjarnir og illviljaðir, hefnigjarnir, fláráðir og þrællyndir, óhófsamir, lostafullir og saurlífir, svikulir og þjófóttir. Hvaða ódyggða er ekki að vænta hjá fólki sem dvelst á eyðilegu landi og stundar sjó í ótakmörkuðu sjálfræði, án aðhalds samviskunnar, eftirliti og utanaðkomandi aga?“

Þannig lýsti Johann Anderson, borgarstjóri í Hamborg, Íslendingum í umdeildu riti sínu um land og þjóð sem gefið var út ytra 1746. Verkið birtist nú í fyrsta sinn á íslensku, auk andmæla Jóns Þorkelssonar, rektors Skálholtsskóla. Í bókinni eru jafnframt endurprentaðar alræmdar Íslandslýsingar þeirra Göries Peerse og Dithmars Blefkens frá 16. öld. Öll þessi skrif eiga erindi um okkar daga þegar ímynd Íslands á alþjóðavettvangi er í brennidepli.

Már Jónsson og Gunnar Þór Bjarnason sáu um útgáfuna, þýddu og rituðu inngang.

Höfundur: Johann Anderson
 
Út er komin bókin Sagan af klaustrinu á Skriðu eftir dr. Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing. Steinunn stýrði uppgrefti á Skriðu, einni viðamestu fornleifarannsókn sem ráðist hefur verið í um árabil á Íslandi. Á daginn kom að Skriða var ekki aðeins aðsetur munka með helgihaldi og heitum bænum, heldur einnig skjól hinna sjúku og dauðvona. Í bókinni er saga staðarins rakin, sagt frá leitinni að klaustrinu og óvæntum niðurstöðum uppgraftarins sem er nýlokið.
 
Í verkinu eru yfir 150 ljósmyndir, kort og teikningar. Steinunn Kristjánsdóttir segir frá klaustrinu og uppgreftinum á fjörugan og skemmtilegan hátt, án þess að slegið sé af fræðilegum kröfum. Fyrir lesendum opnast heimur trúar og valds, lífs og dauða.
 
Steinunn Kristjánsdóttir fæddist í Barðastrandarsýslu árið 1965. Hún nam fornleifafræði við Gautaborgarháskóla, lauk þaðan doktorsprófi árið 2004 og hefur fengist við rannsóknir á Austurlandi um árabil. Steinunn er dósent í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands.
 
Verkið hefur þegar hlotið lofsamlega dóm og er hér aðeins stiklað á stóru:
 
Þegar bók Steinunnar, Sögunni af klaustrinu á Skriðu, er flett sést fljótlega að hún er ekki hefðbundin fornleifaskýrsla, textinn er líflegur og fræðandi í senn, enda greinilegt að skrifað er fyrir leikmenn ekki síður en fræðinga.
(Árni Matthíasson, Morgunblaðið 26. ág. 2012).
 
Það er mikið gleðiefni að finna og nema svo kirfilega unnið vísindaverk og hér er á ferðinni. ... Steinunn og hennar lið getur með stolti og sæmd litið til baka á þetta langa ferli nú þegar niðurstaða er fengin í verkið með útgáfu Sögunnar um klaustrið á Skriðu. ... [Steinunn] á fyrir verk sitt mikinn sóma skilinn svo fallegt sem það er í öllum frágangi og innilegt í skilningi sínum á þeirri miklu sögu sem gröfturinn á Skriðu leiddi um síðir í ljós.
*****
(Páll Baldvin Baldvinsson, Fréttatíminn 17. sept. 2012)
 
 
Bók Steinunnar Kristjánsdóttur er engin venjuleg skýrsla að loknum fornleifagreftri. Steinunn hefur skrifað læsilega sögu af klaustrinu byggða á áþreifanlegum heimildum sem hún hefur sjálf grafið úr jörðu með samstarfsfólki sínu auk ritheimilda. Í sögunni lesum við ekki aðeins um það sem upp kom og samhengi þess. Við kynnumst líka innri glímu fornleifafræðings sem lifir sig inn í fag sitt: spennunni sem gerir vart við sig þegar eitthvað óvænt kemur upp á yfirborðið en líka rödd samviskunnar sem vaknar þegar grafarró löngu látinna einstaklinga er raskað. — Sagan af klaustrinu á Skriðu er falleg bók í mörgu tilliti og öllum aðgengileg.  Full ástæða er til að samgleðjast Steinunni með árangurinn.
(Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu, Hugrás 23. okt. 2012)
 
 
 
Höfundur: Steinunn Kristjánsdóttir


Drupal vefsíða: Emstrur